Skipulagsskrá

Skipulagsskrá fyrir Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð ses.

1. gr.

Nafn og varnarþing.

Stofnunin heitir Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð ses., og er sjálfseignarstofnun sem starfar á grundvelli laga nr. 33/1999, um sjálfseignar-stofnanir sem stunda atvinnurekstur. Heimili og varnarþing hennar er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur.

Tilgangur stofnunarinnar, sem hér á eftir verður aðeins nefnd Fjölmennt, er að stuðla að því að fötluðu fólki, 20 ára og eldra, sem þarfnast sérstaks stuðnings við nám af þeim ástæðum, bjóðist fjölbreytt símenntun í formi náms og námskeiða að loknu formlegu námi í skólakerfinu. Fjölmennt skal í starfi sínu taka mið af alþjóðlegum samþykktum þar sem fjallað er um menntun fatlaðs fólks s.s:

    Sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007 um réttindi fatlaðs fólks.

    Salamamcayfirlýsingunni, einkum 56. og 57. gr.

Þá skal Fjölmennt jafnframt taka mið af markmiðsgrein laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992, 2 gr. og öðrum íslenskum lögum sem kveða á um réttindi fatlaðra eftir því sem við á.

Við skipulag námstilboða skal lögð áhersla á að fatlað fólk fái tækifæri til að nýta sér eins og frekast er kostur almenn námskeið á símenntunarmarkaði. Með því skal leitast við að framfylgja hugmyndafræði samskipunar og jafnstöðu sem hefur að markmiði aðgengi fatlaðs fólks að allri almennri þjónustu samfélagsins til jafns við þá sem ófatlaðir eru.

3. gr.

Hlutverk.

Fjölmennt er símenntunar- og þekkingarmiðstöð fyrir fatlað fólk, 20 ára og eldra, sbr. 2. gr. og skal hún byggja starfsemi sína á hugmyndafræði samskipunar og jafnstöðu. Með vísan til framangreindrar hugmyndafræði mun Fjölmennt rækja hlutverk sitt með eftirfarandi hætti:

1. Veitir ráðgjöf.

  • Veita öðrum símenntunaraðilum ráðgjöf um skipulagningu og framkvæmd náms fyrir fatlað fólk, bæði nám sem er sérstaklega sniðið að þörfum þess og almennt nám, sem það gæti stundað með ófötluðum.
  • Veita fötluðu fólki ráðgjöf við að velja og nýta sér námstilboð á vegum annarra símenntunaraðila og menntastofnana.

2. Starfar með öðrum símenntunaraðilum.

  • Stuðla að því að símenntunaraðilar bjóði námskeið sem henta fötluðu fólki og aðstoða við að setja upp slík námskeið til að auka fjölbreytileika og gæði.
  • Vinna að því að námstilboð séu í samræmi við hugmyndafræði samskipunar og blöndunar.
  • Niðurgreiða námskeið þannig að fatlað fólk greiði ekki meira fyrir námið en aðrir, að teknu tilliti til styrkja til þátttakenda.
  • Fylgjast með gæðum náms sem þessum hópi er boðið.

3. Heldur námskeið.

  • Halda sértæk námskeið fyrir þá sem geta ekki nýtt sér námstilboð símenntunaraðila og þegar framboð á námskeiðum er ekki fyrir hendi.

4. gr.

Samstarfsaðilar.

Til þess að Fjölmennt geti náð megintilgangi sínum sbr. 2. og 3 gr. skal stjórn hennar leggja áherslu á aukið samstarf við aðra símenntunaraðila s. s. landshluta-bundnar símenntunarmiðstöðvar, og önnur fræðslusamtök um námskeiðshald fyrir fullorðið fólk.

Fjölmennt getur einnig með sérstökum samningi tekið upp samstarf við stofnanir á háskólastigi um að þær skipuleggi og bjóði fötluðu fólki nám lagað að þörfum þess.

Halda skal kostnaði af slíkri starfsemi að fullu aðgreindum frá öðrum rekstri stofnunarinnar.

5. gr.

Stofnendur og fjárhagslegar skuldbindingar.

Stofnendur Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar ses., eru eftirtaldir:

Öryrkjabandalag Íslands kt.   631292-2599              Hátúni 10, 105 Reykjavík.

Landssamtökin Þroskahjálp kt. 521176-0409           Háaleitisbraut 13, 108 Reykjavík.

Stofnfé er kr. 1.000.000.- krónur ein milljón 00/100-. Áður greitt stofnfé til Fullorðinsfræðslu fatlaðra, (síðar Fjölmennt) kt. 580702-2440, að upphæð kr. 570.000,00.- fimmhundruðogsjötíuþúsund 00/100 er hluti af nýrri stofnfjárgreiðslu. Stofnfé skiptist að jöfnu á milli stofnendanna. Stofnfé greiðist að fullu í reiðufé. Stofnféð er óafturkræft.

Fjölmennt ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eigum sínum og þeim eignum sem hún síðar kann að eignast og er ekki háð neinum öðrum lögaðila.

Fjárhagslegar skuldbindingar stofnunarinnar eru stofnendum óviðkomandi umfram stofnframlag. Stofnendur njóta engra sérréttinda í félaginu.

6. gr.

Rekstrartekjur.

Tekjur Fjölmenntar eru rekstrarstyrkur frá mennta- og menningarmála-ráðuneytinu á grundvelli sérstaks þjónustusamnings. Þjónustusamningurinn skal gerður til ákveðins tíma í senn og í honum skal nánar kveðið á um umfang þjónustunnar, framkvæmd hennar og  samstarf og upplýsingaskyldu hvors aðila fyrir sig.

Tekjur geta einnig verið af þjónustu fyrir heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld, framlög frá sveitarfélögum, samtökum, fyrirtækjum og einstaklingum. Þegar um það er að ræða að veita ákveðna þjónustu á grundvelli þessarar mgr. skal ávallt gerður um það ákveðinn samningur.

7. gr.

Skipan stjórnar.

Stjórn Fjölmenntar skal skipuð fimm mönnum til þriggja ára í senn og fimm til vara. Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands skipa tvo menn hvort, Háskóli Íslands, menntavísindasvið einn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

8. gr.

Ábyrgð og hlutverk stjórnar.

Stjórn Fjölmenntar stýrir öllum málefnum stofnunarinnar, setur henni markmið og stefnuskrá og kemur fram fyrir hennar hönd út á við. Stjórnin sér til þess að skipulag og starfsemi félagsins sé jafnan í góðu horfi.

Stjórnin ákveður meginþætti í starfstilhögun stofnunarinnar á hverju tímabili og setur sér og stofnuninni starfsreglur. Formaður eða framkvæmdastjóri í umboði hans boðar til stjórnarfundar með minnst 3ja daga fyrirvara með formlegri dagskrá. Stjórnarfundur skal haldinn ef einn stjórnarmanna eða framkvæmdastjóri krefst þess. Stjórnarfundur er ákvörðunarbær ef meirihluti hennar sækir fund og löglega hefur verið til fundarins boðað. Mikilvæga ákvörðun má þó eigi taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að kynna sér málið sé þess nokkur kostur. Stjórnin skal halda gerðabók um það sem gerist á fundum og skulu fundarmenn undirrita fundargerðir.

Undirskrift tveggja stjórnarmanna skuldbinda stofnunina enda sé formaður ávallt annar þeirra.

Stjórnin ákveður sjálf þóknun sína samanber 20 gr. laga um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri,  nr. 33/1999.  Þóknun stjórnarmanna má ekki vera hærra en venjulegt er miðað við eðli og umfang starfanna.

9. gr.

Ráðning framkvæmdastjóra.

Stjórn Fjölmenntar getur ráðið framkvæmdastjóra og veitt honum prókúruumboð fyrir stofnunina. Framkvæmdastjóri skal hafa með höndum stjórn á daglegum rekstri stofnunarinnar og hann kemur fram fyrir hönd hennar í öllum málum sem varða þann rekstur. Hann ber ábyrgð á reikningshaldi og ráðningu starfsmanna. Framkvæmdastjóri getur ekki á sama tíma setið í stjórn stofnunarinnar.

Framkvæmdastjóri á rétt á setu á stjórnarfundum og hefur þar málfrelsi og tillögurétt nema stjórnin ákveði annað ef fjalla þarf um málefni er varða hann persónulega. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar sem þeir óska og veita ber samkvæmt lögum.

10. gr.

Ársfundur.

Stjórn Fjölmenntar skal halda ársfund eigi síðar en í maílok ár hvert. Þar skal lögð fram skýrsla stjórnar um liðið starfsár stofnunarinnar og kynntir endurskoðaðir ársreikningar. Þar skal einnig tilnefning löggilts endurskoðanda og skipan stjórnarmanna og varamanna fara fram.

Auk stjórnarmanna eiga rétt til setu á ársfundi með málfrelsi og tillögurétt þrír fulltrúar frá Landssamtökum Þroskahjálpar, þrír fulltrúar frá Öryrkjabandalagi Íslands og framkvæmdastjóri Fjölmenntar. Ársfund skal boða skriflega með viku fyrirvara.

11. gr.

Reikningsár og reikningsskil.

Reikningsár Fjölmenntar er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Reikningar Fjölmenntar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreikninga, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs skal stjórn stofnunarinnar senda ársreikningaskrá ársreikning sinn ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðenda og upplýsingum um hvenær ársreikningurinn var samþykktur.

12. gr.

Breytingar á skipulagsskrá.

Skipulagsskrá þessi kemur í stað eldri skipulagsskrár fyrir sjálfseignarstofnunina Fullorðinsfræðslu fatlaðra (síðar Fjölmennt) kt. 580702-2440, sem dagsett er 27. ágúst 2002 og skráð var samkvæmt ákvæðum laga nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Sú stofnun verður afskrifuð um leið og þessi skipulagsskrá verður staðfest samanber 1. mgr. 50. gr. laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

Allar eignir hinnar afskráðu stofnunar renna til Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar, samanber stofnskrá þessa og stofnunin yfirtekur þjónustusamninga sem hin afskráða stofnun hefur gert.

Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt ef 4 af 5 stjórnarmönnum Fjölmenntar eru því samþykkir, enda hafi tillaga um slíkt sérstaklega verið kynnt í fundarboði til ársfundar og fundur hafi verið lögmætur. Samráð um breytingar á skipulagsskrá skal haft við fulltrúa stofnenda og skulu allar ákvarðanir um breytingar hljóta staðfestingu þeirra.

 Starfseminni verður ekki slitið nema með samþykki stofnenda.

13. gr.

Slit starfseminnar.

Verði starfsemi Fjölmenntar slitið skal eignum hennar varið í þágu framhaldsmenntunar fatlaðs fólks. Komi til uppsagnar annars stofnaðilans án slita á starfseminni getur hann ekki krafið stofnunina um hlutdeild í eignum hennar.

14. gr.

Önnur ákvæði.

Um starfsemi Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar ses., gilda að öðru leyti ákvæði laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eftir því sem við getur átt.

 

Reykjavík 3. júní 2010

 

 F.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar                    F.h. Öryrkjabandalags Íslands

Gerður A. Árnadóttir                                                            Guðmundur Magnússon

Til baka