Fræðsla og tjáning

Markmiðið með námskeiðinu er að þátttakendur fái möguleika á að sýna öðrum hvaða þekkingu og hugsun þau raunverulega búa yfir og geti náð að tjá sig betur um þarfir sínar og langanir og öðlast meiri nánd í samskiptum. Einnig að fræðast meira um það sem áhugi þeirra beinist að.

Námskeiðið er ætlað einhverfu fólki sem hefur lítið sem ekki hefðbundið talmál til tjáningar. Námskeiðið er byggt á aðferðum Rapid Promting method (RPM) – hraðhvataaðferð. Aðferðin byggir á fræðslu og síðan er spurt út í efnið.  Grunnur aðferðarinnar er þekking og skilningur á því hvernig skynjun og skynúrvinnsla einhverfs fólks virkar.

Samstarf við aðstoðarfólk/aðstandendur þátttakanda er afar mikilvægt og boðið er upp á fræðslu um aðferðina og hvernig skynjun einhverfs fólks virkar oft á annan hátt en hjá óeinhverfum. Mikilvægt er að einhver úr hópi aðstoðarfólks verði RPM tengill og þannig í meira samstarfi við kennara og fylgi eftir því sem er ákveðið.

Þeim fjölgar sem hafa lært með þessari aðferð að tjá sig og þó nokkrir hafa skrifað bækur um líf sitt og um það hvernig skynjun þeirra virkar. Markmiðið með þessu námskeiði getur þó ekki verið að ná þangað en frekar að ná að auka lífsgæðin og gefa tækifæri til meiri þátttöku í eigin lífi.

 

Kennt verður einu sinni í viku, 1- 2 kennslustundir í senn.

Reynt verður að fara eftir óskum umsækjenda um tímasetningar. Vinsamlega takið fram í athugasemdadálki hvaða tími kemur alls ekki til greina.

Bréf sem staðfestir inntöku á námskeiðið mun berast eftir miðjan ágúst.

Staður: Fjölmennt
Verð: 8.700-11.700
Tími: 7 vikur