Sjálfstæðara líf með aðstoð sýndarveruleika

Námskeiðið er haldið í samstarfi við Þroskahjálp.
Á þessu námskeiði verður hægt að æfa sig í sýndarveruleika í athöfnum til sjálfstæðara lífs. Hægt verður að takast á við nýjar og krefjandi aðstæður. Í gegnum sýndarveruleika er hægt að æfa sig eins oft og þörf krefur við öruggar aðstæður. Lögð er áhersla á að hafa sýndarveruleikann eins nálægt veruleikanum eins og mögulegt er.
Athafnir sem hægt er að æfa sig í eru:
Mæta á kjörstað og kjósa
Tekið upp í kjördeild í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hér er hægt að æfa allt ferlið frá því að mæta á kjörstað þar til atkvæði hefur verið skilað í kjörkassann.
Taka strætó
Tekið upp í samvinnu við Strætó. Nær yfir ferlið frá því að bíða á stoppistöð, fara um borð í réttan vagn, hegðun í vagninum á ferð, hvenær og hvernig við látum vita að við viljum fara út og hvernig best er að bera sig að þegar úr vagninum er komið.
Að leita sér aðstoðar eftir ofbeldi
Tekið upp í samstarfi við Bjarkarhlíð. Því miður sýna allar rannsóknir að fatlað fólk er allt að fimm sinnum líklegra til þess að verða fyrir ofbeldi. En fatlað fólk er ólíklegra en aðrir þolendur til að fá aðstoð til að vinna úr því. Þessi veruleiki sýnir hvernig það er að koma í Bjarkarhlíð, hvernig er tekið á móti fólki, hvaða aðstoð er í boði fyrir þolendur. Með þjálfun í sýndarveruleika verður umhverfi Bjarkarhlíðar, og jafnvel einstaka starfsmenn, aðeins kunnglegra.
Fjöldi kennslustunda og tímasetningar er ákveðin í samráði við umsækjanda.
Bréf sem staðfestir inntöku á námskeið mun berast eftir miðjan desember.