Um Fjölmennt

Fjölmennt var stofnuð árið 2002. Menntamálaráðuneyti gerði þjónustusamning við Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands um rekstur símenntunarstöðvar fyrir fatlað fólk. Starfseminni var skipuð fimm manna stjórn og tilnefndi hvort félag tvo fulltrúa og Kennaraháskóli Íslands einn fulltrúa. Fyrsti samningur var gerður til fimm ára og rann út 31.07.2007.

Samkvæmt þjónustusamningnum hafði Fjölmennt tvíþætt hlutverk: að sinna námskeiðhaldi fyrir fatlað fólk og að veita ráðgjöf til náms við aðrar menntastofnanir. 

Fjölmennt er sjálfseignarstofnun og var gerð skipulagsskrá fyrir starfsemina sem sjá má hér á heimasíðunni. Fjölmennt fær fjárframlag sem ákveðið er í fjárlögum hvers árs og fyrir það fé er starfsemin rekin. Í stefnuskrá Fjölmenntar birtast hugmyndafræði og áherslur í starfseminni. Þar eru jafnframt tilgreind þau gildi sem leiða eiga starfið hjá stofnuninni.

Nýr þjónustusamningur var undirritaður þann 4.12.2015. Samningurinn nær yfir árin 2015-2017. Sjá má þann samning á heimasíðunni undir liðnum þjónustusamningur. Búið er að framlengja samninginn út árið 2019. Fjölmennt heyrir undir lög nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu. Þau lög tóku gildi 1. október 2010.

Með þjónustusamningi sem tók gildi í byrjun árs 2011 og var lögð meiri áhersla á ráðgefandi hlutverk stofnunarinnar. Áhersla var lögð á að styðja fatlað fólk til náms hjá öðrum fræðsluaðilum eða símenntunarstofnunum ásamt eigin námskeiðahaldi. Starfshættir stofnunarinnar þróuðust í átt að fyrirkomulagi annarra símenntunarstöðva. Jafnhliða gerð þjónustusamnings var skipulagsskrá stofnunarinnar endurskoðuð og tók ný skipulagsskrá gildi 01.01.2011. Sjá má skipulagsskrána á heimasíðunni undir liðnum skipulagsskrá.

Í allri stefnumótun Fjölmenntar er lögð rík áhersla á að fatlað fólk geti stundað símenntun til jafns við aðra þegna samfélagins og hjá sömu aðilum og veita fullorðnu fólki símenntun.

Fjölmennt rak á árum áður þrjár starfsstöðvar, í Reykjavík, á Akureyri og á Selfossi. Haustið 2009 hófst formlegt samstarf Fjölmenntar og SÍMEY - Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðarsvæðis, um námskeiðahald á Akureyri. SÍMEY sér nú um námskeiðahald sem áður var hjá Fjölmennt.

Haustið 2012 hófst samstarf Fræðslunets Suðurlands og Fjölmenntar. Eina starfsstöðin er nú í Reykjavík, að Vínlandsleið 14. Jafnframt hafa verið gerðir samstarfssamningar við allar símenntunarmiðstöðvarnar á landsbyggðinni.

Á árinu 2012 gerði Fjölmennt samstarfssamning við Mími-símenntun. Námskeiðahald fyrir fólk með þroskahömlun og á einhverfurófi á höfuðborgarsvæðinu var því skipulagt bæði hjá Fjölmennt í Vínlandsleið og hjá Mími-símenntun. Til hagræðis fyrir umsækjendur var gefinn út einn bæklingur fyrir báða námskeiðsstaði og sótt um námskeiðin á heimasíðu Fjölmenntar.

Frá og með hausti 2018 sér Fjölmennt alfarið um skipulagningu námsframboðs fyrir fólk með þroskahömlun og á einhverfurófi á höfuðborgarsvæðinu.

 

Til baka