Takk fyrir okkur Helga
Helga Gísladóttir hefur látið af störfum hjá Fjölmennt.
Helga á að baki langan og farsælan starfsferil bæði sem kennari og stjórnandi. Helga hóf störf hjá Fjölmennt árið 2004 sem sviðsstjóri og kennari. Árið 2006 tók hún við stöðu deildarstjóra námskeiða og sinnti því starfi til ársins 2013 en þá var hún ráðin forstöðumaður Fjölmenntar. Helga lét af störfum sem forstöðumaður í ágúst 2024 en vann áfram við ýmis verkefni. Hún var fulltrúi Fjölmenntar í starfstengda náminu Færni á vinnumarkaði sem Fjölmennt tók þátt í að þróa, ásamt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Vinnumálastofnun. Einnig vann hún að fleiri verkefnum þar til hún lauk formlega störfum þann 1. maí sl.
Helga hefur nánast alla sína starfsæfi unnið við sérkennslu. Hún útskrifaðist sem kennari árið 1981 og lauk meistaraprófi með áherslu á sérkennslu árið 2007. Í meistaraverkefni sínu fjallaði Helga um menntun nemenda við lok framhaldsskóla og með hvaða hætti væri unnið að tilfærslu nemenda frá skóla til fullorðinsára.
Helga kenndi við Laugaskóla í Sælingsdal árin 1981-83. Þá hóf hún störf við Safamýrarskóla, sem var sérskóli fyrir fötluð börn. Þar starfaði hún þar til hún hóf störf hjá Fjölmennt árið 2004. Í starfi sínu sem forstöðumaður Fjölmenntar hefur Helga gengt lykilhlutverki í faglegri starfsemi Fjölmenntar og hefur Fjölmennt undir stjórn Helgu haldið ráðstefnurnar Nám er fyrir okkur öll og Nám er fyrir öll - hvað er að frétta? og tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum sem hafa aukið námstækifæri fatlaðs fólks og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu almennt. Sem dæmi má nefna Brúum bilið, undirbúningsnámskeið fyrir inntökupróf á sviðslistabraut LHÍ og Sæti við borðið, herferð Þroskahjálpar, Fjölmenntar og Átaks til að auka þátttöku og virkni fatlaðs fólks í notendaráðum um málefni fatlaðs fólks í öllum sveitarfélögum landsins.
Helga hefur fyrir hönd Fjölmenntar tekið að sér ýmis trúnaðarstörf og hefur sem dæmi setið í stjórn Listar án Landamæra frá árinu 2007 og þar af formaður stjórnar til ársins 2018.
Helga hlaut Frikkann heiðursverðlaun Átaks, félag fólks með þroskahömlun árið 2021. Í útnefningunni segir:
”Í störfum sínum hefur Helga ávallt verið tilbúin til að fara nýjar leiðir til að fólk með þroskhömlun væri sýnilegt og virkir þátttakendur í samfélaginu í samráði við það sjálft og félög þeirra.”
Helga hefur alla tíð verið ötull baráttumaður fyrir málefnum fatlaðs fólks og hefur framlag hennar til símenntunar fatlaðs fólks skipt sköpum. Til að mynda átti hún oft frumkvæði að því að koma á samstarfi við aðrar stofnanir til að fjölga námstækifærum fatlaðs fólks sem og komið að fjölda skapandi verkefna innanlands og utan.
Við hjá Fjölmennt höfum notið þeirra forréttinda að njóta starfskrafta Helgu og þökkum henni innilega fyrir hennar framlag og farsælt og gott samstarf.
Við óskum henni velfarnaðar og heilla í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.