Horft fram á veginn

Helga Gísladóttir forstöðumaður Fjölmenntar.
Helga Gísladóttir forstöðumaður Fjölmenntar.

Þann 30. mars hélt Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð ráðstefnuna Nám er fyrir okkur öll. Um 200 manns sóttu ráðstefnuna sem var bæði kraftmikil og árangursrík. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, flutti ávarp í upphafi ráðstefnu. Það var ánægjulegt og uppörvandi að hlusta á ráðherra segja að fram undan sé endurskoðun laga um framhaldsfræðslu þar sem unnið verði að fjölbreyttu og aðgengilegu námi fyrir alla, alla ævi. 

 Hann sagði jafnframt, og ég tek undir það, að menntun og aðgangur að námi sé eitt öflugasta tækið sem beita má til jöfnuðar í samfélaginu. Ég bind því vonir við að fram undan séu aukin tækifæri fyrir fatlað fólk, bæði hvað varðar nám og atvinnu og ég sé mikil tækifæri í því að mennta- og atvinnumál fatlaðs fólks séu undir sama ráðuneyti.

Markmið ráðstefnunnar var að hlusta á óskir og væntingar fatlaðs fólks til náms eftir að formlegu námi lýkur. Lára Þorsteinsdóttir flutti erindið Ég vil breyta sögunni þar sem hún sagði frá draumum sínum um að fara í nám í sagnfræði. Í dag á hún ekki möguleika á því.

Karen Axelsdóttir ræddi um fleiri tækifæri til menntunar. Kolbeinn Jón Magnússon, Margrét M. Norðdahl og Þórir Gunnarsson ræddu saman um mikilvægi listmenntunar og baráttuna fyrir aðgengi að menntun, en draumur þeirra Kolbeins og Þóris er að stunda listnám við Listaháskólann. Anna Rósa Þrastardóttir, sem er nemandi á starfsbraut framhaldsskóla, flutti erindið Framtíð fyrir fatlaða. Í erindi hennar kom fram hversu fá tækifæri fatlað fólk hefur á námi eftir að framhaldsskóla lýkur.

Eftir kaffihlé var unnið í hópum þar sem öllum ráðstefnugestum gafst kostur á að koma óskum sínum á framfæri. Ef niðurstöður ráðstefnunnar eru dregnar saman má í stuttu máli segja að óskir fatlaðs fólks eru alveg þær sömu og annarra. Þau vilja eiga kost á fjölbreyttu námi.

En hvers konar nám erum við að tala um? Gróflega má skipta því í fjóra flokka. Atvinnutengt nám, nám í háskóla, nám við almennar menntastofnanir sem bjóða nám fyrir fullorðið fólk og tómstundatengt nám.

Á síðasta ári hóf Fjölmennt markvisst samstarf við Atvinnu með stuðningi og fram undan er samstarf við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Þetta eru mjög ánægjuleg skref og munu örugglega fjölga tækifærum fatlaðs fólks til atvinnutengds náms.

Í dag er boðið upp á eina námsbraut í Háskóla Íslands, diplóma­nám fyrir fólk með þroskahömlun á menntavísindasviði. Þetta er metnaðarfullt nám og hefur opnað leiðir til atvinnu hjá þeim sem stundað hafa það nám. Nú þarf að gera átak í því að fjölga námstækifærum í háskóla, ekki bara við Háskóla Íslands heldur líka aðra háskóla, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Ég vil líka nefna myndlistanámið í Myndlistaskóla Reykjavíkur, þar hefur undanfarin ár verið boðið upp á nám fyrir fatlað fólk, frábært nám sem vonandi verður áfram í boði.

Þegar ég tala um nám við almennar menntastofnanir á ég við nám við ýmsa skóla sem bjóða upp á nám fyrir fullorðið fólk. Hér má til dæmis nefna tölvuskóla, málaskóla, dansskóla og svo mætti áfram telja. Fjölmennt hefur í gegnum árin átt í farsælu samstarfi við ýmsa skóla af þessu tagi og við þurfum að auka það.

Það má ekki gleyma tómstundatengda náminu. Ég hef úr mörgu að velja ef mig langar að fara á námskeið til að auka þekkingu mína og lífsgæði. Þannig á það líka að vera hjá fötluðu fólki.

Sá hópur sem stundar nám hjá Fjölmennt er mjög ólíkur. Nám sem hentar einum hentar kannski ekki öðrum. Sumir geta stundað nám í hópi á meðan aðrir þurfa einkakennslu. Við megum ekki gleyma þeim sem eru í námi til að auka lífsgæði sín og þeim hópi sem hefur miklar stuðningsþarfir og á erfitt með að sækja sinn rétt. Það hafa ekki allir áhuga á að fara í háskóla eða atvinnutengt nám og þá verðum við að bjóða upp á fjölbreytt námskeið fyrir þann hóp.

Ísland hefur undirritað ýmsa alþjóðlega sáttmála sem segja að það eigi allir að geta menntað sig. Það er til dæmis alveg skýrt í 24. grein í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar segir að aðildarríki að samningnum skuli tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að hefja almennt nám á háskólastigi og að fá aðgang að starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra.

Og það á að tryggja að fatlað fólk fái viðeigandi aðlögun. Það er nefnilega ekki nóg að opna skólana, fólk á rétt á að fá þá aðstoð sem það þarf.

Menntastefna íslenskra stjórnvalda til ársins 2030 byggist á einkunnarorðunum Framúrskarandi menntun alla ævi. Fimm stoðir eiga að styðja við framtíðarsýnina og fyrsta stoðin er að allir eigi að hafa jöfn tækifæri til menntunar.

Það er sem sagt búið að ákveða að allir hafi sama rétt svo nú er bara að láta verkin tala!

Að endingu vil ég vitna í fyrirlesarana á ráðstefnunni, breytum sögunni með Láru, gefum Karen fleiri tækifæri til menntunar, látum drauma Kolbeins og Þóris rætast og vinnum að framtíð fyrir fatlaða með Önnu Rósu.

Höfundur er forstöðumaður Fjölmenntar.