Í upphafi vorannar

Til þátttakenda á námskeiðum hjá Fjölmennt
Nú er starfsfólk Fjölmenntar að undirbúa námskeiðin sem mörg byrja í næstu viku, þriðjudaginn 11. janúar.

Það hefur líklega aldrei verið meiri hætta á að smitast af Covid og einmitt núna. Námskeiðin eru skipulögð þannig að flestir hópar eru fámennir. Við höfum verið heppin hingað til, þurftum að loka um tíma í mars 2020 en tókum þá upp fjarkennslu fyrir þá sem gátu nýtt sér hana. Fyrir utan þetta tímabil hefur okkur tekist að halda úti staðnámi. Ég vona innilega að svo verði áfram en verð samt að nefna að það má gera ráð fyrir röskun á námskeiðahaldi þegar svona mikið er um smit í þjóðfélaginu. Við munum reyna okkar besta en biðjum um skilning á því ef fella þarf niður námskeiðstíma.

Við höldum áfram að hafa góðar sóttvarnir, snertifletir og kennslugögn eru sprittuð eftir hvern tíma. Ekki er alltaf hægt að virða tveggja metra reglu en starfsfólk er með grímur og í mörgum tilfellum með hanska.

Það er mjög mikilvægt að enginn komi á námskeið ef minnsti vafi leikur á að viðkomandi sé að veikjast. Það kemur fjöldi manns á námskeið alla daga vikunnar og við verðum öll að sýna ábyrgð. Með því eru meiri líkur á að starfsemin gangi vel.

Fyrir hönd starfsfólks Fjölmenntar óska ég ykkur gleðilegs árs og við þökkum fyrir samstarfið á liðnu ári. Þrátt fyrir allt göngum við bjartsýn inn í nýtt ár og viljum trúa því að það sjái fyrir endann á þessum faraldri.

Megi árið 2022 vera okkur öllum gott og farsælt.

Helga Gísladóttir

forstöðumaður