Bless og takk fyrir Anna Soffía!

Anna Soffía Óskarsdóttir
Anna Soffía Óskarsdóttir

Anna Soffía Óskarsdóttir hefur látið af störfum hjá Fjölmennt. Anna Soffía á að baki langan og farsælan starfsferil í fullorðinsfræðslu fatlaðs fólks.  

Anna Soffía útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands vorið 1975. Var árin 1980-1982 við nám í Noregi, Statens speciallærerhögskkole, fyrst almennt sérkennaranám fyrir leikskólakennara og síðan sérhæft nám í kennslu daufblindra, einhverfra og fjölfatlaðra barna sem ekki þróa hefðbundið mál. Árið 2008 lauk hún meistaranámi í sérkennslu við menntavísindasvið Háskóla Íslands og árið 2010 stundaði hún síðan nám í námsráðgjöf við Det Pædagogiske Universitet í Danmörku.  

Árið 1982 hóf Anna Soffía störf við Þjálfunarskóla ríkisins í Kópavogi, síðar Skólann við Kópavogsbraut. Með sameiningu allra þjálfunarskóla ríkisins á höfuðborgarsvæðinu varð til Fullorðinsfræðsla fatlaðra og starfaði Anna Soffía þar við kennslu og sem aðstoðarskólastjóri alveg þar til sú stofnun var lögð niður og Fjölmennt stofnuð árið 2002.    

Þegar Fjölmennt tók til starfa vann hún sem sviðsstjóri og kennari til ársins 2012 en þá tók hún við starfi ráðgjafa fólks með flóknar, samsettar fatlanir og sinnti jafnframt kennslu. Anna Soffía hefur allan sinn starfsferil brunnið fyrir fræðslumálum fatlaðs fólks. Í meistaraverkefni sínu skrifaði hún um námskrá í fullorðinsfræðslu fyrir fólk með flóknar fatlanir í ljósi fötlunarfræða og fræða um fullorðinsfræðslu. Anna Soffía hefur að auki tekið þátt í margvíslegri þróun náms- og kennsluhátta fyrir þennan hóp nemenda. Við óskum henni velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur og þökkum henni góð störf í þágu Fjölmenntar.