Til hamingju Lára

Til hamingju Lára! 

Besta frétt síðustu viku var fréttin um að Lára Þorsteinsdóttir hafi fengið inngöngu í Háskóla Íslands þar sem hún verður nemandi í sagnfræði. Lára var ein af fyrirlesurum á ráðstefnu Fjölmenntar Nám er fyrir okkur öll sem haldin var í mars síðast liðnum. Þar lýsti Lára baráttu sinni fyrir því að fá inngöngu í sagnfræði en hún hefur alla tíð haft áhuga á öllu tengdu sögu og sagnfræði. Í erindi sínu sagði Lára að hún vildi breyta sögunni. Þetta er sannarlega fyrsta skrefið til breytinga. Það að Lára skuli hafa komist inn í sagnfræðina er gífurlega mikilvægt skref í réttindabaráttu fólks með þroskahömlun og á einhverfurófi fyrir jafnrétti til náms. Við vonum að þetta verði öðrum deildum háskólans og fleiri háskólum hvatning til að gefa fötluðu fólki tækifæri.  

Við tökum undir með Láru þegar hún segir að fatlað fólk geti allt sem ófatlað fólk getur, það geri það bara öðruvísi. Fjölmennt óskar Láru innilega til hamingju og óskar henni velfarnaðar í náminu.